Færsluflokkur: Bloggar

Karlrembuyfirgangsháttur Jóns Ásgeirs orðin hálf kómískur

Þessi maður er alveg ótrúlegur - jú mikið rétt að hann, ásamt föður sínum stofnuðu Bónus sem varð þess valdandi að vöruverð lækkaði á Íslandi og íbúar úti á landi sluppu úr klóm kaupfélaga og Framsóknarmanna.

En það eitt og sér gerir þá feðga ekki ósnertanlega. Það sér það hver heilvita maður að eitthvað er ekki rétt í fjármagnssvallinu sem átt hefur sér stað hjá þessum kappa. Búið er að tæma bankann innanfrá og við sem gátum tímabundið keypt ódýrari mat þurfum að gjalda þess að fullu með ofurvöxtum. Hann er orðin svo vanur að fá sínu framgengt þessi náungi að núna hótar hann lögfræðing í slitastjórn Glitnis, Steinunni Guðbjartsdóttur að fara í mál við hana og fá hennar eignir frystar þar sem hún fari ekki með rétt mál.

Halló, hún er lögfræðingur sem er að reyna að fá réttlætinu framfylgt, ekki þjófur sem komið hefur peningum undan. Mögulega telur hann sig hafa sterk spil á hendi þar sem hún er kvenmaður og maður lætur nú ekki konur taka svona sterka karla í bakaríið. Er hægt að kæra lögfræðinga fyrir að segja að mögulega eigi maðurinn miklar innistæður í breskum bönkum. Það er ekki eins og hann hafi gefið henni ótakmarkaðan aðgang að eignum sínum og innistæðum. En svona ranghugmyndir fær maður líklega þegar maður er farin að sjá sjálfan sig sem "ósnertanlegan"

Í þessu flókna sjónarspili sem fyrirtæki tengd Jóni Ásgeiri og öðrum nýaldarvíkingum eru staðsett í þyrfti líklega að stofna nýtt MA nám svo venjulegt fólk myndi skilja þessa flækju. Má þó áætla að hann og aðrir sem keyptu sig inn í bankana hafi haft efni á sérfræðingum til að útfæra þessi flóknu fyrirtækjanet og greitt þeim ágætis laun fyrir vikið, þögnina og trúnaðinn.

Og fyrst ég er nú komin út í sérfræðingaumræðuna á annað borð - hvað er þetta hjá Arionbanka að Bónusfeðgar verði að stjórna búllunni svo hún gangi. Við erum að tala um verslunarrekstur, ekki geymvísindi eða kjarnorkueðlisfræði. Ég trúi ekki öðru en að það séu til hæfir einstaklingar sem geta rekið þessar matvöruverslanir, og þá er ég ekki að meina fólk eins og Söllenberger sem fer í rekstur því hann fékk ekki að vera áfram með í strákaklúbbnum hans Jóns Ásgeirs. Ég er að tala um heiðarlegar og heilsteyptar manneskjur sem eru með þarfir kúnnans að leiðarljósi og sætta sig við að hafa veltuna á eðlilegum nótum - ekki til að fjárfesta í snekkjum, flugvélum og öðrum mis-nauðsynlegum hlutum fyrir sig og sína.

Þetta mál er að verða algjört bull - auðvitað vill maðurinn ekki að málið sé tekið fyrir erlendis. Þar hefur hann ekki eins mikil ítök og áhrif eins og hann hefur hérlendis. Lögfræðingur hans reynir að koma með allskonar fáránleg rök svo málið verði ekki tekið fyrir á erlendri grundu. Jú sko Jón Ásgeir talar ekki nægilega góða ensku eða það þarf að kalla svo ofboðslega mörg vitni frá Íslandi sem aldrei munu mæta á staðinn svo það eyðileggur málið. Jú kærum bara lögfræðinginn fyrst þetta tekst ekki. Virkilega sorglegir náungar, virkilega sorglegir.


Dulin fátækt eða nýfátækt er ekki ásættanlegt ástand þegar bankarnir græða

Undirrituð var við nám í Noregi þegar kreppa skall á þar fyrir rúmum 17 árum. Einn hluti af námi mínu fjallaði um það sem kallað var "nyfattigdom" þ.e. þegar fólk bjó í stórum húsum, varð atvinnulaust og réði ekki við afborganir af eignum sínum. Á íslensku mætti útfæra þetta sem dulin fátækt, eða nýfátækt. Þetta fór illa með margar fjölskyldur og komu sumir sér í enn verri klípu með því að reyna að fela ástand sitt. Tóku yfirdráttarlán til að greiða afborganir en áttu síðan ekki fyrir mat eða öðrum nauðsynjum. Margir af þeim sem hérlendis eru með gjaldeyrislán hafa reynt að greiða af lánum sínum til að missa ekki eignir sínar og flestir þeirra eru farnir að skulda tvöfalt söluvirði eignarinnar. Hér á landi er talað um þá sem eru á vanskilaskrá en þær tölur sýna ekki ástandi eins og það er raunverulega.

Hæstiréttur hefur komist að niðurstöðu um ólögmæti gjaldeyrislána sem virðist vera byggður á lagalegum bakgrunni. Auðvitað á að leiðrétta þessi lán samkvæmt því, ekki samkvæmt því sem þingmenn telja eðlilegt. Það eru ekki lántakendur sem eru sökudólgarnir hér. Bankarnir hafa verið að státa sig af góðri afkomu bæði á síðasta ári og á þessu svo auðvitað eiga þeir að lagfæra það sem ólögmætt er þrátt fyrir að Mörður Árnason hafi eitthvað annað á tilfinningunni. Líklega hefur hann ekki þurft að kljást við afborganir af slíkum lánum sjálfur.

Svo erum það við hin með verðtryggðu lánin. Ekki er ástandið þar neitt til að hrópa húrra yfir heldur því þessi lán eru að sliga margann manninn. Ég sit allavega uppi með það að hafa tapað þeim eignarhluta sem ég átti í minni blokkaríbúð og vel það. Er eiginlega orðin ansi þreytt að bíða eftir þessum "lausnum" og orðin leið á að hafa endurteknar áhyggjur um hver mánaðarmót. Svo núna er að fæðast í huga mínum það sem ég kalla "nýhugsun" í stað "nýfátæktar". Til hvers að vera að borga og borga eitthvað sem aldrei minkar, fjármagna eign sem maður kemur aldrei til með að eignast. Maður upplifir sjálfa sig sem algjört fífl - svona eins og Bakkabræður að fylla vatn í botnlausa fötuna. Ef maður reynir að standa sig þá getur maður aldrei leyft sér neitt annað í lífinu. Svo nýhugsunin er: hvernig væri bara að gefa skít í þetta og leyfa bankanum að eiga eignina sem er orðin skuldin, leigja sér litla íbúð og hafa þá allavega efni á að versla í matinn, fara í bíó og mögulega einhvertíma aftur á ævinni til útlanda Cool

Kæri Mörður, næsti maður - sem erum við - er nú þegar að borga skuldirnar sem aðrir komu yfir á okkur og það var ekki svona venjulegt fólk, heldur gráðugir einstaklingar sem komu sér fyrir í gráðugum bönkum sem eru enn að græða á hinum almenna borgara, þ.e. okkur. Svo ef ástandið breytist ekki held ég að það komi að því að ég hætti að skilgreina mig sem nýfátæka (í blokkaríbúðinni minni) og skilgreini sjálfa mig sem nýhugsandi sem tek ekki þátt í að halda þessari græðgisvæðingu bankanna áfram heldur fer að lifa kæruleysislega svona dag fyrir dag.  Tounge

 

 


mbl.is Vill verðtryggingu á lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vörður tryggingar er fyrirtæki sem stendur fyrir sínu

Það er ekki oft sem maður heyrir talað vel um þau tryggingarfyrirtæki sem starfrækt eru hér á landi. Oftar en ekki les maður um ákveðin fyrirtæki sem fólk hefur lent í miklu basli við - sum þeirra hafa t.o.m. mjög neikvæðan stimpil á sér.

Sjaldan eru í gangi sögur af tryggingarfélögum sem gera vel við sína kúnna og koma fram við þá af fagmennsku og með virðingu. Þetta var eitthvað sem ég upplifði hjá Verði tryggingum þegar við lentum í því óhappi að það kviknaði í bifreið í okkar eigu. Maður verður líka að láta vita af slíku þó ekki væri nema til að koma jafnvægi á allar þessar neikvæðu umræður í heiminum í dag og segja fólki frá fyrirtækjum sem standa sig vel. Ekki bara í að standa við sitt heldur standa sig einnig vel í þessu mannlega líka sem heitir góð og jákvæð samskipti.

brunninn bíll 3Bíllin var á ferð og aftur í honum var fullt af verkfærum, golfsett og aðrir hlutir sem höfðu verið teknir með upp í sumarbústað á Austurlandinu. Á Suðurlandsveginum fór bifreiðin að missa kraft og ákveðið var að fara út og skoða hvað væri þess valdandi. Viti menn - það var kviknað í bílnum, svona eins sést í  hasarbíómyndum frá Ameríku og þeir sem voru í bílnum áttu fótum sínum fjör að launa. Samkvæmt þeim sem óku á eftir bílnum höfðu eldglæringar staðið undan honum í nokkurn tíma svo þá má teljast heppni að ekki fór verr.

Mikill kvíði læddist að mér þegar þurfti að hringja í tryggingarfélagið því maður hefur jú heyrt af mörgum sem hafa lent í þvílíku stappi við þessi félög. Ég þurfti að tala við tvær misjafnar deildir þar sem þessir hlutir falla undir misjöfnu tryggingarskilmála - og viti menn starfsfólkið var ekkert nema kurteisin ein, útskýrði allt fyrir mér á besta hátt, sýndi virkilega samkennd með því sem kom fyrir og gerði sitt besta til að afgreiða þetta sem fyrst. Það var alveg sama við hvern ég talaði, ég fékk alltaf sama hlýlega viðmótið. Ég sem var alveg staðföst í því að tryggingarfélögin væru bara öll rotin og gerðu allt til að sleppa við að kúnnarnir fengju mál sín afreidd á réttmætan hátt. Þetta endurvakti virkilega trú mína á að maður verður að passa sig á stimplun - ekki setja alla undir einn hatt.

Auðvitað fengum við ekki allt sem tapaðist greitt til fulls - þannig virka ekki tryggingar. Og þar sem bílalán í dag eru ekki alveg "normal" ef svo má að orði komast, skuldum við ennþá af bíl sem er ekki til. En að hafa fengið svona góða þjónustu og það sem ég vill kalla faglegt viðmót frá starfsmönnum Varðar gerir tapið ekki eins sárt, ég meina þetta eru dauðir hlutir sem fóru og þeir sem voru í bílnum sködduðust ekki.

Svo gott fólk það finnast ennþá tryggingarfyrirtæki sem koma fram við kúnna sína af virðingu og hafa faglegheit að leiðarljósi í starfi sínu sem betur fer. Takk fyrir það :)


Veðsett mannorð - hvað á að níðast lengi á almenning?

Þeim á eftir að fjölga sem fara á vanskilaskrá ef ekkert er að gert.  Jú það er reyndar til ýmiskonar úrræði en þau miðast öll út frá því að viðkomandi nái að greiða upp þau lán sem hafa vaxið þeim yfir höfuð vegna ofurvaxta, verðbólgu og erlendra lána.  Stjórnendur bankanna brosa og bjóða 25% lækkun til að aðstoða heimilin - æ hvað þeir eru nú góðir í sér.  En bíðið nú við, voru bankarnir ekki að státa sig af því að gróði þeirra sé orðin það mikill að þeir geymi peningana Seðlabankanum til að fá betri vexti. 

Erlendir gjaldmiðlar hækkuðu flestir u.þ.b. 80-100% í hruninu. Bankarnir fengu afskrifað helling af þeim lánum sem þeir sjálfir höfðu fengið hjá erlendum fjáramálafyrirtækjum. Við hérna "litlu tannhjólin" sem erum með lán, hvort sem þau voru upphaflega verðtryggð í íslenskum krónum eða í erlendri mynnt, erum að greiða þessi lán okkar á uppsprengdu verði. Margir sem átti hluta í íbúðum eða bifreiðum sínum hafa misst sinn eignarhlut og eru þar að auki komin með skuldabagga að burðast með. Ekki er hægt að fá sér aukavinnu til að redda hlutunum, því fólk má þakka fyrir að hafa vinnu yfirleitt.

Ef hægt væri að skila lyklum af þessum eignum og ganga burt gæti fólk mögulega sætt sig við það tap sem það hefur orðið fyrir. En nei, slíkt kemur ekki til greina því hérlendis eru bankarnir ekki aðeins með veð í þeirri eign sem þú kaupir - þeir eru líka með framlengingu á þessu veði og sú framlenging er mannorð þitt.  Ef þú greiðir ekki að fullu fyrir alla þá vitleysu og sukk sem fjármálafyrirtækin og handbendlar þeirra létu yfir þig ganga undanfarin ár þá er það bara gjaldþrot sem bíður þín.

Mannorð margra hefur boðið hnekki þrátt fyrir að ekki sé alveg komið að gjaldþrotinu því fyrst fær fólk að prófa allskonar niðurlægingu, td. láta valta yfir  sig í vinnu vegna hræðslu um uppsögn eða kannski missa vinnuna og þurfa að ganga í gegnum allt skrifræðið  í stofnunum samfélagsins þar sem fólk þarf að skila næstum 1 hektara af regnskógi af pappírsgögnum á hinum og þessum stöðum til að sníkja út einhverjar krónur upp í skuldirnar. Sumir eiga ekki mat fyrir sig eða börnin sín og upplifa sig gangslausa og vonlausa á allan hátt.

Þetta er ekki spurning um fjölda úrræða - það þarf að töfra fram úrræði strax. Úrræði sem virka og virka vel. Langtímaúrræði sem gera fólki kleift að sjá einhver ljós í göngunum. Ef ekki þá sitjum við uppi með margar brotnar fjölskyldur, aukinn geðrænan vanda, aukna vímuefnaneyslu og banka sem eiga helling af íbúðum og bílum sem þeir ekki geta selt, né geymt í Seðlabankanum.

Reynum að gera lífið einfaldara og leysa þessi mál án þess að nota þraspólitík og hraða snigilsins sem leiðarljós - það hefur allavega ekki virkað fram að þessu. 


mbl.is Um 22 þúsund á vanskilaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingismenn fastir inn í einangraðri glerkúlu

Það mætti halda að alþingismenn okkar, allavega flestir, séu innilokaðir í glerkúlu sem er mjög vel einangruð fyrir því sem er að ske fyrir utan. Þeir eru í sínu eigin sandkassastríði til að reyna að vina hylli fólksins með því að sýna okkur hvað óvinir þerra eru slæmir og þeir sjálfir góðir. Það eru breyttir tímar gott fólk – við viljum þetta ekki lengur!!! 

Sigurður Kári, stuttbuxnastrákurinn sem komst reyndar aftur inn í glerkúluna því konu var fórnað fyrir strákaflokkinn, gasprar hátt um laun seðlabankastjóra. Þetta kallast pólitík í dag - maður reynir að kasta sandi í óvíni sína og láta alla sjá hvað maður nær að meiða þá illa. En þá má maður líka búast við að fá til baka á kjaftinn því Jóhanna sló hann í hausinn með plastskóflu og sagði öllum frá þeim styrkjum sem óvinur hennar hann Sigurður Kári þáði frá útrásavíkingum. Já og hennar flokkur fórnaði líka konu út af styrkjamálum.

 

HALLÓ af hverju haldið þið að Besti flokkurinn hafi fengið svona mikið fylgi í Reykjavík. Gæti það verið af því að fólk er orðið svo yfirmáta leitt á því að það sé verið að eyða dýrmætum tíma á Alþingi, tíma sem hægt væri að nota mun betur í þágu almennings. Tíma sem gæti farið í að finna betri lausnir fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Nei eyðum frekar tímanum í sandkassaþras sem ætti að eiga sér stað á allt öðrum vettvangi en þarna.

 

Það er fullt af fólki sem er að gefast upp svo endilega reynið að stíga niður úr glerkúlunni ykkar og fara út á meðal fólks og upplifa og finna hvernig landið liggur. Ekki svona heimsóknir eins og "rétt fyrir kosningar" heldur alvöru umræður með opin augun. Það voru við „fólkið“ sem völdum ykkur þarna inn. Sýnið okkur þá virðingu að hætta svona skítkastaþrasi og notið tíma ykkar í að byggja upp landið að nýju, ekki bara bankana og eigið umhverfi. Ef ekki gæti endað með því að Langbesti flokkurinn tæki af ykkur völdin í næsta skipti.


mbl.is Vænd um spillingu og lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opin borgarafundur á Ísafirði - bíddu halló er engin kona þarna á pallinum

Mikið rosalega er míns sjokkeruð Frown  það er ekki einn einasti kvennmaður sem situr á stjórnmálapallinum á borgarafundi stjórnmálaflokkanna á rúv. Hvað er í gangi? Ég trúi því ekki að engin frambærileg kona sitji þarna uppi- bara karlmenn í 1.sætinum og sem forsvarsmenn!!!! 

Þetta er alveg nákvæmlega sama sýnin og ég sá þegar ég sá fundi hjá bönkunum og þessum stærri stofnunum í sjónvarpinu fyrir kreppuna - bara karlar, engar konur (ef þær voru þarna voru þær í jakkafötum). Hvernig væri nú að skoða þetta aðeins betur Angry

Horfði líka á Silfur Egils í gær - mikið var áhugavert að hlusta á þessa erlendu kappa sem tjáðu sig í lokin. Þegar og ef við fáum einhvertíma að vita um skuldir þessa lands og ef það er rétt sem einhver sagði að þrátt fyrir að skattar yrðu tvöfaldaðir bæði á einstaklinga og fyrirtæki næðum við ekki einu sinni að greiða vextina af þessum lánum þá held ég að við þurfum að endsurskoða þessa stefnu okkar um að standa í skilum. Ég er að eðlisfari heiðarleg manneskja og greiði mínar skuldir, en ég veit ekki hvort ég er tilbúin í að vera heiðarleg fyrir aðra sem hafa klúðrað málum og þurfa vegna þess selja Ísland upp í skuldir. Og hana nú!!! GetLost


Áfram Sölvi, Þorsteinn J og Skjár1

Finnst frábært að Skjár1 skyldi hafa vit á því að ráða hann Sölva Tryggvason þegar Stöð 2 lét þennan flotta fréttamann fara. Það er ekki gott þegar fréttamenn geta illa sett skoðanir sínar í ljós án þess að eiga það á hættu að missa starfið. Sölvi býr yfir þeim sérstaka hæfileika að vera "mannlegur" í fréttaflutningi, þ.e. hann nær að fá fram hliðar sem fáum öðrum tekst að nálgast án þess að verða dónalegir eða með óþarfa yfirgang.

Einnig er það gott mál að Káta maskínan hans Þorsteins J fengi aðsetur á Skjánum - hæfileikaríkur og reyndur maður á réttum stað.

Svo áfram Skjár1 - gott hjá ykkur að fá til ykkar svona gott og hæfileikaríkt fólk!!!

 


Kjósum næst einstaklinga ekki flokka - viðhöldum lýðræði og fáum hæft fólk í störfin

Devil leyst mér vel á þessa umræðu hjá honum SiflurAgli þar sem kerfisfræðingur (Eve online) var að ræða um gamlar hugmyndir Vilmundar Gylfasonar heitins um að forsætisráðherra ætti að kjósa - einnig ætti að kjósa einstaklinga á þing ekki flokka. Þetta gæti fyrirbyggt þessa flokkaspillingu og vinargreiða sem eiga sér stað í þessu batteríi.  Lýðræðið er ekki að virka í dag það er alveg á hreinu. Ég man allavega eftir tveimur mönnum sem voru margstrikaðir út af lista Sjálfstæðismanna en ég veit ekki betur en að annar þeirra sé samt sem áður ráðherra í dag og hinn þingmaður. Gallinn er að þetta er ekkert betra í hinum flokkunum, þeir eru aldir upp í þessari flokkspólitísku siðblindu. 

Svo leyfa þessir aðilar sér, sem VIÐ höfum kosið, að hækka sinn eigin lífeyri langt upp fyrir það sem við hin höfum. Bíddu halló!! vorum það ekki við sem gáfum ykkur tækifæri á að sitja þarna - gerir það ykkur eitthvað verðmættari en okkur í ellinni? Þið ættuð að launa okkur, ekki ykkur sjálfum!!!

Almenningur öskrar á nýjar kosningar, en hvað fáum við þá í staðinn- nákvæmlega sömu spillinguna og valdafíknina bara með öðru flokksnafni, en sama sandkassaleikinn.  Ekki hef ég tekið eftir því að hinir flokkarnir séu með neinar skilvirkari lausnir á vandanum, það snýst aðalega um það að koma sér og sínum að. Einu lausnirnar sem maður heyrir er frá hinum og þessum fræðingum og ekki fræðingum út í bæ sem almenningur hlustar á en ekki þeir sem eru að stjórna.

Svo orð dagsins eru...

"Legg ég það á og segi svo til um að.... hugmyndir Vilmundar Gylfasonar verði alvarlega skoðaðar til að koma lýðræði á fót á Íslandi að nýju - þá höfum við líka möguleika á að ráðið sé í aðrar stöður í þjóðfélaginu á eðlilegan hátt - eftir hæfni viðkomandi, ekki því hvernig hann eða hún tengist inn í flokkspólitík, því hér eru menn sem eru löngu búnir að Alien sínum stöðum illilega en sitja þar samt sem fastast þrátt fyrir að hafa klúðrað málum á versta veg og valdi ekki störfum sínum. Ég nefni engin nöfn því einn tiltekinn maður virðist vera hefnigjarnari en eðlilegt telst (svona smá hint þá á hann sama upphafsstaf og ég og vinnur í Seðlabankanum) hróp og köll almennings um að slíkir menn hverfi á brott virðist fjúka út í vindinn"

Svo heyr, heyr - kjósum næst manneskjur, ekki flokka!!!


Verkefnaþreyta í náminu

Þreytt og þrútin nemi

þjösnast tölvu á

verkefni á sveimi

vætti mína ég kalla á

Heilinn eins og þeytivinda

útbrunninn og grár

Dauðar heilasellur synda

út um krullað hár

Hvernig á ein kona

að klára þetta allt

Þetta á ekki að vera svona

kuldalegt og kalt

Um sumarið það verður búið 

og aftur lífið mitt á ný

Heilatetur ei lengur lúið

yndislegt að fara í frí

 


Allways look on the bright side of life.. (flaut, flaut...)...., gildir líka í þessari andlegu styrjöld okkar

Það má eiginlega segja að þetta ástand sem við höfum verið að upplifa undanfarið sé, eða hafi verið andleg eða ósýnileg styrjöld. Munurinn á sýnilegri styrjöld og ósýnilegri er sá að eftir sýnilega styrjöld eru húsbyggingar í rúst, skarð í félagslegu umhverfi fjölskyldna o.fl. Að því loknu er tími uppbygginga og í gegnum tíðina hafa samfélög staðið saman að uppbyggingu eftir þær styrjaldir sem hrjáð hafa heiminn - ef það hefði ekki verið gert væri ástandið víða sérkennilegt.

Hvað er ég eiginlega að meina með þessu rugli mínu, jú í augnablikinu er hnattræn niðursveifla eftir mikla uppsveiflu í fjármálum - svona nokkurskonar yin og yang jafnvægisleiðrétting. Auðvitað upplifðu ekki allir þetta svokallaða góðæri en afleiðingar niðursveiflunnar geta samt sem áður einnig komið niður á þeim einstaklingum. Þá er um að gera að horfa á þetta sem tímabil þroska því krísur eru alltaf til staðar og ef maður vinnur rétt úr þeim þá eru þær þroskandi - ef ekki þá staðnar manneskjan.

Í þessari ósýnilegu styrjöld okkar sem heimsbyggðin upplifir um þessar mundir er ekki síður þörf á uppbyggingu eftir hrun þó þetta hrun sé ekki eins sýnilegt fyrir augað eins og rústir húsbygginga og látið fólk. Þetta er eitthvað sem við getum ekki breytt aftur á bak en við getum horft fram á við - þar á fókusin að vera.

Það verður að vera grundvöllur fyrir því að viðhalda gleði og jákvæðni, en því stjórnum við dálítið sjálf. Við getum tuðað og röflað og hellt okkur í neikvæðni og svartsýni. Við getum líka reynt að horfa fram á við og sjá tækifæri og lausnir. Auðvitað getur þetta ástand orðið erfitt fyrir marga - en "erfitt" er samt sem áður upplifun. Ég er alls ekki að benda á að fara í afneitun fyrir ástandinu heldur horfa á að það eru alltaf til möguleikar í lífinu.

Oft er það þannig að manneskjan er mest frjó í huganum þegar á reynir - þ.e.s. ef hugurinn er ekki stappfullur af neikvæðni og uppgjöf. Ýmsar uppfinningar, bókmenntir, tónlist, myndlist.... margt af því besta hefur verið gert þegar illa árar.

Svo ég segi bara as my finale ..Ekki er allt með öllu...illt að ei boði gott - það má finna út úr öllu ánægjuvott....... og svo..... "stöndum þétt saman, snúum bökum saman.... sumir á, sumir á,..... bomsum.....  eða kannski .... "allways look on the bright side of life".... (flaut).......  eða..... "dont worry - be happy...(og líka flaut)......

Hafið gott líf Whistling


Næsta síða »

Um bloggið

dlkb

Höfundur

Dagbjört L. Kjartansd. Bergmann
Dagbjört L. Kjartansd. Bergmann

Sjálfstæður einstaklingur, kona, móðir, dóttir, sambýlingur, frænka, vinur, félagsráðgjafi með starfsréttindi, MA í félagsfræði/atvinnulífsfræði, kennsluréttindi fyrir framhaldsskóla

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • brunninn bíll 3
  • ...teli_610966

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 129

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband